Kærleikskúlan 2025 er lent á Byggðasafninu.

Byggðasafnið í Görðum á Akranesi verður með Kærleikskúluna til sölu frá og með deginum í dag 2. desember til 23. desember, á kr. 7.400- kr.
 
Allur ágóði af sölunni rennur óskiptur til sumarbúðanna í Reykjadal sem Gló stuðningsfélag (áður Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra) á og rekur. Dvölin í Reykjadal er börnum og fjölskyldum þeirra afar mikilvæg en þar er lagt uppúr því að öll upplifi gleði og ævintýri.
 
Kúlan verður til sölu á skrifstofunni í safnaskála frá kl. 08:00 til 15:00 mánudaga til fimmtudaga og 08:00 til 12:00 á föstudögum og sýningarhúsi Byggðsafnsins á laugardögum frá kl. 13:00 til 17:00. 
 
Einnig er hægt að hringja í okkur í síma 433 1150

 

,,Halda þræði"

Eini endinn sem gefur eftir er yst, en hinn liggur í hjarta hnykilsins og er aðeins aðgengilegur með því að vefja sig í gegnum allt ferðalagið. Markmið ferðalagsins er að forðast flækjur en þær eru þó nánast óumflýjanlegar, sérstaklega ef maður tapar þræðinum á leiðinni.

Ferðalag hvers hnykils er einstakt, því enginn vefur sinn hnykil á nákvæmlega sama hátt. Það sem fyrir einum virðist auðvelt, getur reynst öðrum snúið. Ferðalagið krefst þolinmæði og elju, það er ekki ætlað þeim sem vilja skjót svör eða styttri leiðir.

Ólíkt daglegu amstri, þar sem athyglin slitnar í allar áttir, býður hnykillinn aðeins einn lausan enda. Sá endi er stöðug uppspretta hlýju, hugmynda og möguleika. Það er þar sem allt byrjar.

Loji Höskuldsson (f. 1987) er þekktur fyrir frumleg útsaumsverk sem bera með sér sakleysislegan húmor og milda nostalgíu. Hann sameinar hefðbundnar og tilraunakenndar aðferðir í hægfara handverksferli og sækir viðfangsefni sín í hversdagsleikann. Árið 2025 sýndi hann verkið 193 Days in Stockholm á Market Art Fair í Stokkhólmi með V1 Gallery, sem vakti athygli fyrir nákvæmni og leikandi túlkun menningarlegra einkenna. Loji hefur einnig unnið með danska hönnunarfyrirtækinu Hay fyrir Chart árið 2021, og lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2010.