Ferðalangar

Í gegnum tíðina hafa einstaklingar ferðast heimshorna á milli, ýmist af frjálsum vilja eða neyð, sótt sér þekkingu og flutt með sér til heimahaganna. Hér er sagt frá sjö einstaklingum með ólíkan bakgrunn sem settu mark sitt á samfélagið.

 


 

Guðrún Gísladóttir

(1868 – 1954)

Guðrún Gísladóttir var fyrst kvenna gerð að heiðursborgara á Akranesi. Hún ólst upp á Hvalfjarðarströnd og tók ung ljósmóðurpróf hjá landlækni. „Mundu það nú, Gunna mín, að biðja Guð að vera með þér í þessu verki,” sagði faðir hennar skömmu áður en hún tók á móti fyrsta barninu, árið 1892, en þau urðu alls 1166 talsins. Guðrún var talin meðal bestu ljósmæðra á landinu; þolinmóð, athugul, handlagin og þrekmikil. Hún var líka skáldmælt, orti til dæmis kankvíslega um kaffið sem veitti kraft og styrk á næturvöktum.

Kaffið mitt ég þakka þér

þínar kjarabætur

þú hefur löngum líknað mér

langar vökunætur

 

 


 

Guðjón Þórðarson

(1885 – 1941)

Þegar Guðjón Þórðarson, vesturfari, steig á land í Steinsvör í mars árið 1909, íklæddur vísundafeldi, með koffort og riffil um öxl, þekkti hann enginn. Hann hafði verið sendur í fóstur til Winnipeg í Kanada aðeins tólf ára að aldri, þegar langvarandi fátækt dró kraft úr íslenskum bæjum. Við heimkomuna bjó hann yfir fjölbreyttari lífsreynslu en flestir Skagamenn. Hann hafði ferðast með lestum, lært veiðar af frumbyggjum, heimsótt raflýstar borgir með glæsilegum steinhúsum, en hann hafði líka kynnst því að harðindin geta verið víða og að einangrun er ekki bundin fámenninu einu.

 


 

Haraldur Böðvarsson

(1889 – 1967)

Kaupmannssonurinn Haraldur Böðvarsson hélt sextán ára gamall til Englands til að kynna sér enska tungu og hóf eigin útgerð um leið og hann sneri heim. Hann varð síðar einn mesti athafnamaður landsins á 20. öld og frumkvöðull á ýmsum sviðum. Hann gaf aðbúnaði og heilsu fólks alla tíð sérstakan gaum. Þegar hann og eiginkonan Ingunn Sveinsdóttir færðu Akurnesingum fullbúið kvikmyndahús að gjöf, árið 1943, fylgdu þeir skilmálar að ágóðinn rynni til uppbyggingar sjúkrahúss í bænum. Sjúkrahús Akraness tók til starfa áratug síðar, að miklu leyti fyrir fé frá Bíóhöllinni.

 

 


 

Kristrún Hallgrímsdóttir á Bjargi

(1833 – 1912)

Þegar ungu hjónin Kristrún Hallgrímsdóttir og Tómas Erlendsson fluttu á Akranes árið 1855 og hófu búskap í torfbænum Bjargi var húsakosturinn dapur og efnahagurinn bágur. Þar áttu þau þó eftir að eignast 17 börn. Eftir að húsbóndinn féll skyndilega frá barðist Kristrún við örlögin og innheimtumenn, en tókst með reglusemi og festu að koma barnahópnum til manns. Samhliða þessu var vísir að sjúkrahúsi starfræktur á Bjargi. Torfbærinn þótti svo þrifalegur að þar voru framkvæmdar skurðaðgerðir. Kristrún hjúkraði öllum sjúklingunum sjálf.

 


 

Oddur Sveinsson í Brú

(1891 – 1966)

Hinn kunni fréttaritari Oddur Sveinsson, oftast kenndur við verslun sína Brú, var sagður „gáfaður og glaðvær hugsjónamaður“. Hann sigldi um heimshöfin á millilandaskipum, tók kennarapróf í Reykjavík og sótti sjóinn um árabil. Í heimabyggð hvatti hann ungmenni til íþróttaiðkunar, til dæmis á Langasandi, og var í hópi þeirra sem færðu Skagamönnum sinn fyrsta fótbolta. Síðast en ekki síst flutti hann lesendum Morgunblaðsins hnitmiðaðar sögur úr bæjarlífinu undir fyrirsögnum á borð við Gamalmennaskemmtun á Akranesi og Rokið braut rúðu.

 

 


 

Svafa Þórleifsdóttir

(1886 – 1978)

Margar kynslóðir Akurnesinga nutu umsjónar Svöfu Þórleifsdóttur, skólastjóra, sem vann ötullega að menntamálum í bænum í aldarfjórðung. Hingað fluttist hún árið 1919 og tók við stjórn Barnaskóla Akraness, þá þegar menntuð á mörgum sviðum. Svafa var meðal hinna fyrstu til þess að nota söng og tónlist í kennslu og lagði áherslu á barnavernd innan og utan skóla, því „ekkert kostar eins mikið og það að láta reka á reiðanum í uppeldi barnanna“. Hún var fyrsti formaður Kvenfélags Akraness, og starfaði í forystusveit margra annarra félagasamtaka á svæðis- og landsvísu.

 


 

Béla Hegedüs / Bjarni Gústafsson

(1937)

Undir lok ársins 1956 komu fyrstu ungversku flóttamennirnir til Íslands í boði íslensku ríkisstjórnarinnar, fyrir milligöngu Rauða Kross Íslands. Þá hafði herlið Sovétmanna nýverið ráðist inn í Ungverjaland. Í hópi flóttamannanna var ungur maður, Béla Hegedüs, síðar nefndur Bjarni Gústafsson. Viðdvölin á Íslandi átti ekki að vera löng, en í fyllingu tímans bjó hann sér heimili á Akranesi, sem hann valdi sérstaklega vegna áhuga síns á veiðum. Hann tók farmannapróf frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík, starfaði bæði á síldar- og hvalbátum, en gerði lengst af út sinn eigin bát frá Akranesi.