HVAÐ EF (15.05.2020-14.05.2021) Kolbrún S. Kjarval

Click for english

Kolbrún S. Kjarval (f. 1945) er fædd á Íslandi og nam myndlist í Danmörku og Bretlandi. Hún valdi snemma leirinn til listsköpunar og notast við flestar leirgerðir í verkum sínum hvort sem það er steinleir, rauðleir, jarðleir eða postulín. Hún blandar gjarnan jarðefnum úr íslenskri náttúru í leirinn og er óhrædd við að gera tilraunir með efnið. Náttúran í öllu sínu veldi, birtan, ljós og skuggar, kveikja hjá henni hugmyndir og fólk og fuglar eru áberandi í teikningum hennar. Nærumhverfi Kolbrúnar á Akranesi og hversdagslífið veitir henni ekki síður innblástur. En það er ímyndunaraflið sem fær þó að ráða för í listsköpunarferlinu.

Kolbrún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum á Íslandi og erlendis. Hún kenndi leirlist um árabil á Íslandi og í Danmörku ásamt því að reka sitt eigið gallerí.

Kolbrún hefur búið og starfað á Akranesi síðan árið 2008. Árið 2017 var hún útnefnd Bæjarlistamaður Akraneskaupstaðar.

Sýningin HVAÐ EF er að hluta unnin út frá munum í eigu Byggðasafnsins og með safnaumhverfið í huga. Á sýningunni eru jafnframt verk unnin í París veturinn 2017/2018, auk eldri verka í eigu listakonunnar.