Önnur mannvirki

Fiskhjallur Jóns Gunnlaugssonar frá Bræðraparti var byggður í kringum 1890 og stóð upp af Skarfatangavör. Hjallurinn var sá síðasti sinnar tegundar á Akranesi og var fluttur á Byggðasafnið í Görðum árið 1961 og endurgerður þar.

Bátaskýlið er endursmíði að gamalli fyrirmynd og var reist og afhent safninu að gjöf 1961 til minningar um Jón Gunnlaugsson. Skýlið var byggt yfir árabát Jóns, Sæunni MB 9 sem er til sýnis inni á Byggðasafninu í Görðum.

Eldsmiðja var byggð árið 2013 fyrir Norðurlandamót eldsmiða sem haldið var á Byggðasafninu í Görðum það sama ár. Húsið var byggt í samvinnu safnsins og Félags íslenskra eldsmiða.

Hákarlahjallur var reistur árið 2003. Slíkir hjallar voru víða og er þessi eftirmynd sótt að Dröngum í Árneshrepp á Ströndum. Hjallar sem þessi voru mikilvægir til varðveislu matar.