Garðastofa - listasalur byggðasafnsins

Og svo henti lítið atvik

(Click for english version)

Hversdagsleikinn, dagsdaglega lífið, núið. Allt eru þetta augnablik sem við reynum að varðveita, staldra við og njóta, eða forðast. Góðu stundirnar en einnig harmurinn sem er óhjákvæmilegur hluti lífsins. Það er ekki svo langt síðan grundvallar mannréttindi sem og að njóta frelsis til að elska var forréttinda staða fárra hér á landi. Með kvennréttindabaráttum síðustu 100 ára hefur viðhorf okkar til samskipta í ástarmálum breyst á tiltölulega skömmum tíma. Viðhorf og gjörðir sem ekki njóta samþykkis lengur en eru svo sannarlega ekki horfin og viðgangast enn á fjölmörgum stöðum. Sýningin Og svo henti lítið atvik varpar ljósi á þær gagngeru breytingar sem hafa átt sér stað í samfélaginu um rétt fólks til að elska, haga högum sínum og njóta eins og það vill sjálft. Sýningunni er ætlað að skoðar hvernig samskiptin voru og veltir upp spurningum fyrir framtíðina, hér er nauðsynlegt að staldra örlítið við og hugsa hvar við erum stödd núna? Hvað höfum við gert hingað til og hvað gerist hér eftir?

Sýningin Og svo henti lítið atvik samanstendur af verkum eftir Heiðar Mar Björnsson, Bryndísi Ósk Þ. Ingvarsdóttur, Sveinbjörgu Símonardóttur, Kristin E. Hrafnsson og Söru Hjördísi Blöndal. Verkin byggja öll með einum eða öðrum hætti á orðum og segja hvert og eitt sögur af hversdeginum, hugleiðingum um dagsdaglega lífið og ástina. Þau deila á samfélagið sem við búum í, fyrir fram ákveðna staðla og formúlur sem ganga svo sannarlega ekki fyrir alla þegna samfélagsins. Sýningin leggst ofan á grunnsýningu sem fyrir er á Byggðasafninu og varpar nýju ljósi á frásögn hennar og áherslur.

Verk Heiðars Mar Brot af heimsins harmi er kvikmyndaverk sem kallast á við ljóð eftir Stein Steinarr, Heimurinn og ég. Í verkinu fangar Heiðar Mar eitt lítið brot af heimsins harmi, harmi mennskunnar, harminn sem litar samfélög. En titill sýningarinnar er jafnframt fenginn úr sama ljóði Steins Steinarr. Verkinu er varpað á innsetningu í grunnsýningu Byggðasafnsins þar sem fjallað er um lífið til sjós, og spilast endurtekið.

Leiðarvísir í ástarmálum er byggt á samnefndum bæklingi eftir Ingimund gamla frá árinu 1922. Verkið er afrakstur samvinnu sviðslistakonunnar Bryndísar og Söru Hjördísar, sýningarstjóra, og er sérstaklega unnið fyrir sýninguna Og svo henti lítið atvik. Bæklingurinn inniheldur leiðbeiningar fyrir karlmenn sem vilja stíga í vænginn við konur og er einstakur gluggi inn í hugarfar fólks fyrir rétt um 100 árum. Verkið stillir upp þessum gamaldags og úreltu viðmiðum við nútímann og kallast þau á við þær samfélagslegu breytingar sem hafa átt sér stað síðustu ár og áratugi. Þetta rómantíska hrútskýringarit ætlað körlum hefur sennilega aldrei átt að koma fyrir augu kvenna og talar því tæpitungulaust um þá eiginleika sem karlmenn töldu að góð kona kynni að meta. Ef horft er framhjá úreltum viðhorfum bæklingsins má sjá glitta í rómantík sem er sjaldséð í íslenskum heimildum og kemur beint frá hjartanu.

Í verkinu In conversation with Amma spjallar sýningarstjórinn við 87 ára gamla ömmu sína um upphafið, það sem varð þegar hún kynntist manninum sínum þegar þau unnu saman í síldarverksmiðju í Ingólfsfirði. Þær spjalla um tilhugalífið og börnin þeirra þrjú. Verkið er staðsett í þeim hluta grunnsýningar byggðasafnsins sem fjallar um lífið við vinnu, verkið talar inn í frásögnina og framlengir hana út fyrir vinnudaginn, hvað tók við, hver er þeirra saga? In conversation with Amma er hluti af fyrsta verkefni sýningarstjóra í meistaranáminu sem hún nú útskrifast úr.

Við lok sýningarinnar má finna verkið Tímamót eftir Kristin E. Hrafnsson þar sem hann veltir fyrir sér hvað sé að baki og hvað taki við. Verkið er þröskuldur sem myndar orðin Hingað til og Hér eftir og rammar verk Kristins vel inn þær hugleiðingar sem sýningin hefur kallað fram og hvetur til að máta sig í orðum verksins, tengjast þeim og velta þeim fyrir sér. Verkið er staðsett í gönguleið á gólfi safnsins og gestum því gert kleift að ganga yfir það, jafnvel oftar en einu sinni. Gestir ganga frá sýningunni með hugleiðingar Kristins í farteskinu; hvað hefur gerst hingað til og hvernig verður þetta hér eftir?