Lífið í landi

Ríkir landeigendur voru efstir í stéttskiptu samfélagi. Fátækir bændur leigðu af hinum ríku, en neðst í virðingarstiganum sat vinnufólk.

Á miðöldum bjó lögbundið misrétti til forréttindastéttir. Konur höfðu lítil réttindi, máttu til dæmis ekki reka dómsmál nema með hjálp karlmanns. Stúlkur fengu heimanmund þegar þær giftust en höfðu takmörkuð yfirráð yfir eignum sínum. Ekkjur voru þó fjárhagslega sjálfstæðar.

Fæstir hinna efnaminni áttu eigin hirslur, en það sem geymt var undir koddanum var jafntryggt og í læstum kistli. Sumir söfnuðu svo miklu undir höfðalagið að þeir sátu hálfvegis uppi og var þá sagt að þeir „ættu mikið undir sér“.