Með aðventunni kemur löngun til að hægja á, rifja upp góðar minningar og leyfa jólastemningunni að smeygja sér inn í daglegt líf. Á Byggðasafninu í Görðum, þar sem sagan lifnar við í gömlum munum og sögum, hefur opnað hlýleg og nostalgísk jólasýning í Steypunni sérsýningarými safnsins, þar býðst gestum að stíga inn í heim jólanna eins og þau gátu litið út á árum áður. Sýningin er kærkomið tilefni til að staldra við, líta um öxl og deila augnabliki yfir kynslóðir.
Jólasýningin er samansafn hátíðlegra safnmunar úr eigu Byggðasafnsins í Görðum og endurspeglar jólahald fyrri kynslóða, með áherslu á stemningu, hefðir og daglegt líf. Þar má finna muni sem margir kannast við úr eigin æsku eða af heimilum foreldra og afa og ömmu — og fyrir yngri gesti opnast gluggi inn í fortíðina þar sem jólaundirbúningur, skreytingar og leikföng segja sína sögu.
Fyrir áhugasöm þá má finna alla skráða safnmuni Byggðasafnsins á Sarpi - Hér má til dæmis já allskyns jólagóss.
Á sýningunni okkar í Steypunni má sjá fjölbreytta muni sem mörg kannast við úr eigin æsku eða af heimilum ættingja – og fyrir yngri gesti opnast gluggi inn í fortíðina þar sem jólaundirbúningur, skreytingar og leikföng segja sína sögu. Sýningin er því ekki síður fróðleg en hún er notaleg og hentar jafnt börnum sem fullorðnum.
Samhliða opnun sýningarinnar hefur safnið sett í sölu hugguleg jólakort og merkimiða sem unnin eru upp úr hátíðlegum safnmunum sýningarinnar. Í boði eru þrjár útgáfur af jólatrjám og þrjár útgáfur af rugguhestum, sem endurspegla anda sýningarinnar og jólanna sjálfra.
Jólakort með umslagi kosta 500 krónur og merkimiðar eru seldir í pakka með sex stykkjum, þar sem allar myndirnar eru saman, á 1.000 krónur. Allur ágóði af sölu jólavarningsins rennur í barnamenningarverkefni á safninu sem leggja áherslu á fræðslu, leik og sköpun — og hjálpa börnum að tengjast sínum menningararfi á eigin forsendum.
Við hefjum söluna á morgun laugardaginn 13. desember milli 13:00 - 17:00, ef þið óskið þess að kaupa miða utan opnunartíma þá er hægt að hafa samband við safnið milli 09:00-16:00 alla virka daga á netfangi museum@museum.is eða í síma 4331150.
Gestir eru hvattir til að líta við á Byggðasafninu í Görðum, njóta jólastemningarinnar og rifja upp eða kynnast jólum fyrri tíma. Það er ekki ólíklegt að einhver muni rekast á safnmuni sem veki upp hlýjar minningar úr eigin heimahögum.

Hér má sjá kortin og merkimiðana. Hvetjum ykkur til að láta sjá ykkur á safninu á morgun og næla ykkur í merkimiða á pakkana og jólakort til að senda eða nota sem skraut heima fyrir.