ForsíðaSöfninÞjónustaUpplýsingar
Prenta vefsíðu

Saga íþróttaiðkunar á Akranesi

      

 

FYRSTU ÍÞRÓTTAFÉLÖG Á AKRANESI

 

Íþróttaiðkun á Akranesi á sér 120 ára sögu. Árið 1882 var stofnað þar félag sem kallað var Æfingafélagið. Eitt af markmiðum þess var að félagsmenn æfðu með sér glímu, boltaleiki, sund eða aðra leikfimi. Félag þetta starfaði fram til 1897. Ungmennafélag Akraness var stofnað 23. janúar 1910. Hugsjón þess var sjálfstæðismálið en einnig voru stundaðar íþróttir, s.s. glíma og sund. Félagið gekkst m.a. fyrir kappsundi 1911 eða 1912 í Lambhúsasundi og félagar þess sóttu sundnám að Leirá. Félag þetta hefur aldrei formlega verið lagt niður.

 

Íþróttafélagið Hörður Hólmverji var stofnað af ungmennafélögum 26. desember 1919, en mun hafa starfað eitthvað fyrr. Það starfaði af miklu fjöri framan af, en mun hafa lagst niður um 1926. Þar var stunduð leikfimi og sund en fyrst og fremst glíma og félagið bjó til sundlaug í Mið-Vogslæk. Það var fyrirrennari síðari íþróttafélaga á Akranesi, t.d. knattspyrnufélaganna. 

 

Knattspyrnufélögin á Akranesi urðu til upp úr 1920, félög eins og Gunnar Hámundarson, Stefanía og Skarphéðinn, sem öll lifðu stutt, en þau voru fyrirrennarar þeirra félaga sem síðar voru stofnuð, þ.e. Knattspyrnufélagsins Kára (1922) og Njarðar (1924) sem breytti um nafn sama ár og hét þá Knattspyrnufélag Akraness (K.A.). Þó svo að félög þessi hafi upphaflega verið stofnuð sem knattspyrnufélög þá var keppt í ýmsum öðrum íþróttagreinum, s.s. sundi, handknattleik, glímu, frjálsum íþróttum o.fl.

 

Íþróttaráð Akraness var stofnað 1933 til þess að vera sameiginlegur tengiliður alls íþróttastarfs á Akranesi. Þann 3. febrúar 1946 breytti það um nafn og heitir síðan Íþróttabandalag Akraness (Í.A.).  

 

 

UPPHAF KNATTSPYRNU Á AKRANESI

 

Fyrsta formlega knattspyrnufélagið á Akranesi var stofnað 26. maí 1922 þegar nokkrir drengir á aldrinum 10-14 ára komu saman, fátækir og fákunnandi um flest það sem að slíkri félagsstofnun laut. Ekki var þessu nýja félagi valið nafn að sinni, enda vantaði það sem til þurfti svo félagið gæti staðið undir heitinu knatt-spyrnufélag, nefnilega knöttinn. Á þessum árum kostaði hann 10 krónur og þurfti talsvert átak til þess að afla nægilegra peninga. Þeir erfiðleikar voru þó yfirstignir með sameiginlegri vinnu drengjanna, sem öfluðu peninga m.a. með fiskvinnu, kartöflurækt og frjálsum framlögum. Næsta verkefni var að útvega völl. Langisandur, rennisléttur og víðáttumikill, sérstaklega um fjöru, kom nú í góðar þarfir. Fyrsta æfingin var haldin á Langasandi en áður en hún byrjaði varð að gefa hinu nýja félagi nafn. Hver drengur skrifaði sína uppástungu í sandinn og eftir miklar vangaveltur var samþykkt að félagið skyldi heita Knattspyrnufélagið Kári.

 

Þeir drengir sem stofnuðu Kára áttu flestir ef ekki allir heima á Uppskaganum og því kom ekki á óvart að drengir á Vestur- og Niðurskaganum stofnuðu sitt félag 1924 og nefndu það í fyrstu Njörð, en síðar var nafni þess breytt í Knattspyrnufélag Akraness (KA). Strax við stofnun þess hófust reglulegir leikir á milli félaganna og skipulagt íþróttastarf, sem byggðist fyrst og fremst á knattspyrnuiðkun.

 

Mikil keppni var á milli félaganna og rígur mikill. Árið 1929 gaf Skafti Jónsson útgerðarmaður forkunnarfagran útskorinn bikar til keppni milli félaganna í 1. aldursflokki og var ákveðið að hann skyldi vera farandbikar og ekki vinnast til eignar.

 

Fyrsti sameiginlegi þjáfari félaganna var ráðinn 1933 og var það Axel Andrésson. Axel þjálfaði keppnisflokkana, hélt einnig námskeið í knattspyrnu og einnig námskeið fyrir dómara. Við komu Axels kom nýtt líf í alla íþróttastarfsemi á Akranesi.

 

Gamli knattspyrnuvöllurinn þótti nú ónógur í alla staði og var því leitað til hreppsnefndar um nýtt vallarsvæði. Brást hún vel við og úthlutaði íþróttafélögunum svæði á Jaðarsbökkum, en það var hallfleytt túnstæði sem þurfti mikilla lagfæringa við. Sjálfboðaliðar hófu framkvæmdir við nýja vallarsvæðið vorið 1934, en það gekk heldur seint sem von var, því allt var unnið í frítímum. Hinn nýi íþróttavöllur var þó formlega tekinn í notkun 16. júní 1935 við hátíðlega athöfn.

 

Íþróttaráð Akraness var stofnað 31. maí 1934 samkvæmt lögum frá Íþróttasambandi Íslands og skyldi það hafa yfirstórn íþróttamála í héraði. Þessi stofnun markaði þáttaskil í íþróttasögu Akraness og allt íþróttastarf komst þá í það fasta form sem þekkist í dag.

 

Árið 1935 fóru knattspyrnufélögin í sínar fyrstu keppnisferðir til Reykjavíkur en fyrst var tekið þátt í Íslandsmóti 1. flokks 1943. Enn vantaði tölvert á að liðið gæti staðist hinum sterku liðum frá Reykjavík snúning. Strax á næsta ári 1944 vannst fyrsti leikurinn gegn Víkingi 2-0. Það þótti mikil framför.

 

Togstreita milli félaganna tveggja jók að vísu keppnisskapið en verkaði lamandi á sameiginleg átök. Forystumenn töldu nauðsynlegt að sameina félögin til sameiginlegra átaka út á við. Bygging íþróttahússins við Laugarbraut var ávöxtur af samstarfi félaganna, sömuleiðist ráðning sameiginlegs þjálfara og þátttaka í landsmótum. Samstarfið var einnig til þess að bæta aðstöðu við íþróttavöllinn. Árið 1946 var Íþróttabandalag Akraness stofnað og tók við starfi íþróttaráðs. Frá þessum tíma óx íþróttastarfið hratt og árangur varð markvissari.

 

 

GULLALDARLIÐIÐ 1951 - 1965

 

Akranes árið 1951 var lítið sjávarþorp með 2500 íbúa og lét lítið yfir sér. Skyndilega varð byggðarlagið vettvangur stórliðs í knattspyrnu, liðs sem skilið hefur eftir sig glæsilega sögu metnaðar og atorku ásamt trú á samstöðu og samtakamátt. Að komast í fremstu röð á þessum árum var mikið afrek og engin hefði á þeim tíma gert sér í hugarlund hve þessi viðburður hafði mikil áhrif á sjávarþorpið sem átti eftir að vaxa og dafna, ekki bara sem knattspyrnubær, heldur einnig sem stór og myndarlegur kaupstaður þar sem fjölbreytt atvinnulíf og gott mannlíf dafnar.

 

Það var sterkur hópur frábærra knattspyrnumanna sem braut ísinn  og sýndi að hægt væri að sigra Reykjavíkurstórveldin sem höfðu „einokað” íslenska knattspyrnu að mestu til þess tíma. Strákarnir á Akranesi gáfu öðrum von og tiltrú á það sama. Þetta lið sem gekk undir nafninu „Gullaldarlið Skagamanna” er goðsögn á Íslandi. Allt frá þessum tíma hefur frægðarljómi liðsins skinið skært og þeir leikmenn sem komu við sögu urðu nánast þjóðhetjur með árangri sínum. Vinsældir þessara leikmanna meðal landsmanna voru, og eru jafnvel enn í dag, ótrúlegar.

 

Allir eru sammála um að gullöld knattspyrnunnar á Akranesi hefjist árið 1951, en það átti sinn aðdraganda. Akurnesingar höfðu tekið þátt í  Íslandsmóti 1. flokks 1943, 1944 og 1945 með litlum árangri. Sumarið 1946 var ákveðið að sækja fram og taka þátt í Íslandsmóti meistaraflokks og þetta sama sumar tefldi Akranes fram liði í 2. flokki sem kom sá og sigraði. Þarna vannst fyrsti meistaratitillinn og í liðinu voru margir þeirra drengja sem síðar áttu eftir að verða lykilmenn á gullaldartímanum. Þó næstu árin yrðu erfið má segja að oftast hafi aðeins vantað herslumuninn. Það kom svo í ljós á árunum 1949-50 að liðið var á réttri leið.

 

Lokaþátturinn í að koma Akranesliðinu í fremstu röð hefst 1951. Ríkharður Jónsson kemur þá heim eftir námsdvöl í Reykjavík og tekur við þjálfun í upphafi árs. Ríkharður hafði dvalið um skeið í Þýskalandi og kynnt sér þýska knattspyrnu. Með þá þekkingu kom hann til Akraness og tók við þjálfun liðsins. Herslumunurinn, sem hingað til hafði vantað, kom svo sannarlega með Ríkharði.

 

Lengi vel var allt sem gert var í knattspyrnumálum á Akranesi sótt til þessa liðs og leikmanna þess og yngri knattspyrnumenn fóru í smiðju til þeirra. Áhrif þeirra hafa skilað íslenskri knattspyrnu miklu enda hafa sumir þeirra unnið lengi fyrir knattspyrnuna og gefið mikið af sér fyrir hana eftir að keppnisferli þeirra lauk.

 

 

1966 – 1979  Á BRATTANN AÐ SÆKJA - NÝ VIÐHORF

 

Þó það hafi verið á brattann að sækja í knattspyrnunni hjá Akurnesingum á árunum 1966–1968 var nokkuð ljóst að bjartari tímar væru í vændum. Ný kynslóð leikmanna var að festa sig í sessi og margir þeirra áttu eftir að vera lykilmenn liðsins og bera uppi nýtt gullaldarskeið í knattspyrnunni á Akranesi.

 

Þrátt fyrir að liðið félli í 2. deild haustið 1967 var dvölin þar aðeins eitt ár. Ríkharður Jónsson tók við þjálfun liðsins í upphafi árs 1969 og rak smiðshöggið á mótun sterkrar liðsheildar sem var aðeins hársbreidd frá því að sigra bæði í deild og bikar um haustið. Ljóst var að stutt væri í næsta meistaratitil og hann kom 1970. Á næstu árum ríkti meðalmennska í leik liðsins, en flestir álitu að leikmenn þess hefðu burði til að gera betur. Tími breytinga í íslenskri knattspyrnu var að renna upp og ný viðhorf ruddu sér til rúms. Félögin fóru að huga að ráðningu erlendra þjálfara og voru Akurnesingar í þeim hópi.

 

Svo varð úr að til félagsins réðst George Kirby og með komu hans breyttist svo ótal margt í knattspyrnunni á Akranesi. Hann kom víða við og áhrif hans voru mikil. Hann skapaði mikinn metnað og kom á ströngum aga hjá leikmönnum, jók æfingartíðni og tók upp nýjar aðferðir í meðferð meiðsla. Þá breyttist allt starf forystumanna, því útvega þurfti meira fjármagn og erlendur þjálfari gerði kröfur um hluti sem áður voru óþekktir. Það er óhætt að segja að George Kirby hafi verið rétti maðurinn til að fylgja eftir uppbyggingarstarfi Ríkharðs Jónssonar á árunum á undan og þessir snjöllu þjálfarar mörkuðu því stór spor á þetta tímabil í knattspyrnusögu Akraness.

 

George Kirby lyfti knattspyrnunni á Akranesi á hærra plan á þessum árum, líkt og Ríkharður Jónsson hafði gert 1951 og áhrifa hans gætir enn í dag. George Kirby notaði tíma sinn vel á Akranesi og undirbúningur liðsins var til fyrirmyndar, enda kom það fljótt í ljós að það myndi berjast af alvöru um meistaratitilinn og strax eftir fyrstu leikina voru fjölmiðlar stórhrifnir af leikjum liðsins. Það kom líka vel í ljós á erfiðum lokakafla sumarið 1974  hve gífurlega vel liðið var þjálfað og meistaratitillinn var í höfn þegar lið Víkings var lagt að velli á Akranesi 2:1. Í fyrsta skipti í sögunni höfðu Skagamenn tryggt sér titillinn á heimavelli sínum á Jaðarsbökkum og stuðningsmenn liðsins kunnu svo sannarlega að meta það.

 

Þetta var aðeins byrjunin á glæsilegum ferli George Kirby á Akranesi. Óhætt er að segja að árið 1975 hafi verið  viðburðaríkt  knattspyrnuár. Auk þess að verja meistaratitilinn komust Akurnesingar í úrslit bikarkeppninnar, unnu sinn fyrsta sigur í Evrópukeppni meistaraliða og komust þar með í aðra umferð keppninnar, þar sem mótherjinn var Dynamo Kiev, þá talið besta félagslið Evrópu. Loks áttu Skagamenn sjö leikmenn í landsliðinu þetta ár.

 

Keppnin um titilinn varð fljótt einvígi við Fram og önnur lið heltust úr lestinni. Í tólftu umferð mættust þessi lið á Laugardalsvelli og má með sanni segja að þar hafi farið fram úrslitaleikur mótsins „leikur ársins” sögðu fjölmiðlar og líklega var um að ræða einn eftirminnilegasta leik í sögu mótsins. Um 4000 áhorfendum urðu vitni að einhverju mesta markaregni í sögu Íslandsmótsins. Á síðustu  20 mínútum leiksins voru skoruð sex mörk eftir að staðan var 2-1 fyrir Akranes. Fjögur mörk voru skoruð á fimm mínútna leikkafla en slíkt gerist ekki á hverjum degi. Úrslitin urðu 6:3. Sannarlega eftirminnilegur leikur og titillinn varð áfram á Akranesi. George Kirby sagði í viðtali nokkrum árum síðar að hann teldi að ef Akranesliðið 1975 hefði fengið að haldast óbreytt í nokkur ár í viðbót hefði það getað náð einstökum árangri á Íslandi sem og gegn erlendum liðum enda liðið sérstök blanda frábærra leikmanna. 

 

Liðið 1976 fylgdi ekki eftir frábæru gengi tveggja síðustu ára, en 1977 varð eitt tvísýnasta og skemmtilegasta einvígi í sögu Íslandsmótsins milli Akranes og Vals. Valsmenn höfðu orðið tvöfaldir meistarar 1976 og voru á þessum tíma „erkifjendur” Skagamanna.. Leikmannahópur Skagamanna var smátt og smátt að breytast. Þó voru enn til staðar lykilmenn úr sigurliðunum 1970-75, en yngri leikmenn voru hver af öðrum að festa sig í sessi. Með komu George Kirby á ný þetta ár sást fljótlega sá skemmtilegi bragur er einkenndi liðið 1974-75. Það var sókndjarft og vel skipulagt, framlínumennirnir með Pétur Pétursson í broddi fylkingar fengu að njóta sín þetta sumar og Skagamenn fögnuðu sigri í mótinu. Árið 1978 hélt sama baráttan áfram milli þessara liða og var nánast um einvígi þeirra að ræða. Valsmenn urðu meistarar eftir nauma sigra í innbyrðisleikjum liðanna. Þau háðu einnig einvígi um bikarmeistaratitillinn og þar vann Akranes sigur, þann fyrsta í þeirri keppni. Pétur Pétursson setti markamet í deildakeppninni þetta ár þegar hann skoraði 19 mörk og stendur það met enn í dag.

 

Ljóst var að í lok leiktímabilsins 1978 voru viss kaflaskipti í aðsigi. George Kirby var horfinn á braut og við starfi hans tók Þjóðverjinn Klaus Jörgen Hilbert. Hann fékk það hlutverk að halda merkinu á lofti eftir glæsitímabil undanfarinna ára. Lykilleikmenn á borð við Pétur Pétursson og Karl Þórðarson voru farnir á vit atvinnumennsku og ljóst að eldri leikmenn í liðinu voru að týna tölunni. Það var því ekki auðvelt verkefni sem beið hins nýja þjálfara, en engu að síður þótti hann standa sig vel og liðið var áfram í fremstu röð. Þó engir titlar hafi unnist kom liðið víða við í leikjum sínum þetta ár. Það tók þátt í sterku alþjóðlegu móti í Indónesiu og varð þar í öðru sæti, lék gegn spænska stórliðinu Barcelona í Evrópukeppni bikarhafa, auk þess að vera aðeins einu stigi frá sigri í deildarkeppninni. Ljóst var að kynslóðaskipti voru að verða í knattspyrnunni á Akranesi enn á ný og fyrir lá uppbygging á liði sem héldi merkinu á lofti fram á áttunda áratuginn.

 

 

1980 – 1991  SKIN OG SKÚRIR

 

Um 1980 eru tíð þjálfaraskipti hjá Akranesliðinu og þrátt fyrir það er árangur liðsins þokkalegur. Bikarmeistaratitillinn 1982 gefur vonir um bjartari tíma. George Kirby var við stjórnvölinn það ár og síðan tók Hörður Helgason við þjálfun 1983. Hann stýrði liðinu með glæsibrag næstu þrjú árin og árangur á þeim árum á varla sinn líka, enn á ný sprettur upp stór hópur leikmanna sem markar spor í knattspyrnusögu Akraness.

 

Akranes varð bæði Íslands- og bikarmeistari 1983 og 1984 og það er afrek sem ekkert annað íslenskt lið hefur náð og þegar áratugurinn var hálfnaður hafði liðið tvívegis orðið Íslandsmeistari og unnið bikarmeistaratitilinn þrjú ár í röð, og bætti síðan þeim fjórða við 1986. Hér voru breytingar í aðsigi og Akranesliðið fór ekki varhluta af þeim. Leikmenn skiptu í vaxandi mæli um félög og eldri lykilleikmenn voru að ljúka sínum ferli og ljóst að einhver bið yrði á að liðið yrði áfram í fararbroddi. Örlagadagur liðsins var 8. september 1990. Þetta sumar hafði allt gengið á afturfótunum, en miklar vonir höfðu verið bundnar við liðið. Þó flestir hafi verið búnir að afskrifa sæti liðsins í deildinni í miðju móti, trúðu margir á kraftaverk, en allt kom fyrir ekki. Fall í 2. deild varð ekki umflúið eftir tapleik á heimavelli gegn KR þennan dag.

 

Ekki þýddi að gráta orðinn hlut, heldur safna liði. Uppbyggingarstafið hófst strax og þar dugðu engin vettlingatök. Sem betur fer höfðu forráðamenn liðsins sett sér háleit markmið fyrir framtíðina og höfðu metnað til að vinna að þeim. Akranesliðið skyldi í fremstu röð að nýju á eins skömmum tíma og unnt væri með öllum tiltækum ráðum. Þannig má segja að sama lögmál hafi gilt og í fyrra skiptið þegar liðið féll um deild 1967. Menn stóðu saman í verkefninu og uppskeran var með svipuðum hætti. Guðjón þórðarson var kallaður heim frá Akureyri til að taka við þjálfun og allir leikmenn liðsins héldu áfram og til viðbótar voru fengnir lykilleikmenn sem síðar áttu eftir að láta mikið að sér kveða. Sumarið 1991 er upphafið að þeirri  einstöku sigurgöngu Akranesliðsins og yfirburðir í 2. deild og ágætur árangur í Mjólkurbikarkeppni KSÍ staðfestu að búast mætti við liðinu sterku á næstu árum.

 

 

1991 – 2001     NÝ GULLÖLD – BREYTTIR TÍMAR

 

Einstæð sigurganga Skagamanna í knattspyrnu á síðari árum á sér enga hliðstæðu hér á landi. Þegar litið er um öxl og gengi undanfarinna ára skoðað kemur í ljós að þrátt fyrir áföll er árangur liðsins einstakur. Að vera með liðið í 2. deild kallaði á ný og markviss vinnubrögð og forráðamenn hugsuðu stórt. Þeir ætluðu sér stutta dvöl með liðið á þessum slóðum. Guðjón Þórðarson var kallaður heim til að taka við þjálfun liðsins og allir leikmenn þess héldu áfram og til viðbótar voru fengnir nokkrir lykilleikmenn sem síðar áttu eftir að láta mikið að sér kveða.

 

Sumarið 1991 er upphafið að einstakri sigurgöngu Akranesliðsins og yfirburðir í 2. deild og ágætur árangur í bikarkeppni staðfestu að búast mætti við liðinu sterku 1992. Sigurður Jónsson var kominn heim úr atvinnumennsku og þótt hann léki ekki mikið með vegna meiðsla, nýttist reynsla hans yngri leikmönnunum vel. Eftir því sem leið á keppnina kom í ljós að liðið hafði ágæta burði til að vinna meistaratitilinn sem reyndist síðan næsta auðvelt í lokin. Í lok þessa árs hurfu bestu sóknarmenn liðsins, bræðurnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir á brott til að freista gæfunnar í atvinnumennsku og á næstu árum átti Akranesliðið eftir að missa fjölda leikmanna á vit atvinnumennskunnar í Evrópu.

 

Það kom strax í ljós í upphafi keppnistímabilsins 1993 að Skagamenn höfðu á að skipa yfirburðaliði í íslenski knattspyrnu. Liðið sýndi fáheyrða yfirburði í Íslandsmótinu, hafði níu stiga forystu á næsta lið í lokin, sigraði í bikarkeppninni og náði góðum árangri í Evrópukeppninni með sigri á meisturum Albaníu og sigri á heimavelli gegn hollenska stórliðinu Feyenoord. Eftir tímabilið hélt Guðjón Þórðarson á nýjar slóðir. Þrátt fyrir það var ekkert lát á sigurgöngunni sumarið 1994. Íslandsmótið þróaðist líkt og árin á undan og um tíma hafði liðið níu stiga forystu en missti hana niður í þrjú stig í lokin. Samt var sigur í mótinu sanngjarn, en meiðsl lykilleikmanna settu mark sitt á liðið. Hörður Helgason sem þjálfaði liðið náði að sýna að hann hafði engu gleymt frá árunum 1983-1985 og stýrði liði sínu örugglega að settu marki.

 

Enn urðu breytingar á leikmannahópnum og nýr þjálfari tók við 1995. Logi Ólafsson tók við af Herði og var sá þriðji á þremur árum. Tímabilið byrjaði glæsilega. Stórsigur í Meistarakeppninni, gegn erkióvininum KR, gaf tóninn og tólf fyrstu leikirnir í deildinni unnust. Á lokakaflanum barst  liðinu góður liðsauki, Arnar og Bjarki komu heim á ný og styrktu liðið mikið. Það fór svo að titillin vannst með fáheyrðum yfirburðum, árangur í Evrópukeppni félagsliða var betri en áður og liðið hársbreytt frá því að komast í þriðju umferð keppninnar. Í lok tímabilsins tók Logi við þjálfun íslenska landsliðsins svo enn urðu þjálfaraskipti fjórða árið í röð. Guðjón þórðarson tók á ný við liðinu og tímabilið  reyndist eitt það sigursælasta í sögu íslenskrar knattspyrnu. Sigur vannst í nýju móti, deildarbikarkeppni, og eftir það var ekki aftur snúið. Bikarkeppnin vannst og eftir harða baráttu við KR um Íslandsmeistaratitilinn allt tímabilið var komið að lokauppgjöri á Akranesi í síðustu umferðinni. Rúmlega 7000 manns mættu á Akranesvöll og stemningin var ótrúleg. Þetta var hreinn úrslitaleikur og eftir stórkostlegan leik Skagamanna var aldrei spurning hverjir væru með besta lið landsins. Sigur vannst 4-1 og þeir sem viðstaddir voru upplifðu sætasta sigur félagsins í  deildarkeppninni  fyrr og síðar.

 

Fimm meistaratitlar á jafnmörgum árum og tveir bikartitlar er vissulega frábær árangur. Á sama tíma var sköpuð glæsileg aðstaða á Jaðarsbökkum, búningsklefahús og félagsaðstaða ásamt áhorfendastúku tekin í notkun og sýnir vel samstöðu bæjarbúa. Í sjálfu sér þurfti  engum að koma á óvart þótt eitthvað léti undan og liðið gæfi eftir, liðið hafði misst leikmenn jafnt og þétt í atvinnumennsku og því var öll árin mikil endurnýjun í leikmannahópnum. Það kom greinilega í ljós á þessum tíma að unglingastarfið á Akranesi  var mjög öflugt og stöðugt voru að koma upp ungir leikmenn sem síðan komust margir í fremstu röð. Einnig voru fengnir leikmenn bæði innanlands og utan til að fylla í skörðin en það breytti ekki því að sífellt varð erfiðara að halda úti jafn öflugu liði, enda fjármagn af skornum skammti og vaxandi ytri erfiðleikar. Í lok áratugarins er að koma upp nýtt lið með nýrri kynslóð leikmanna og óhætt er að segja að fimmta kynslóðin fari með Akranesliðið inn í nýja öld.

 

Akranesliðið komst í úrslit bikarkeppninnar 1999 og tapaði, en ári síðar voru þeir enn komnir í úrslit á Laugardalsvellinum og nú vannst áttundi sigur liðsins í keppninni og ljóst að liðið er á uppleið að nýju. Árið 2001 var á margan hátt erfitt og algjör uppstokkun gerð á öllu félagsstarfi á Akranesi. Nú er treyst á að heimamenn haldi uppi merkinu, sem þeir gera  með glæsilegum og eftirminnilegum hætti. Á þessu ári var þess minnst að 50 ár voru liðin frá því Akurnesingar urðu fyrst Íslandsmeistarar og hið unga lið ársins 2001 minntist þessa viðburðar með því að vinna Íslandsmótið og stimpla sig rækilega inn sem lið í fremstu röð.

 

AKRANES Í EVRÓPUKEPPNI

 

Saga og ferill Akranesliðsins í Evrópukeppi hefst árið 1970 og á þeim tíma hefur liðið tekið þátt í öllum fimm keppnunum sem haldnar hafa verið. Ekkert íslenskt félagslið hefur meiri reynslu í slíkri keppni enda leikið mun oftar en önnur íslensk lið. Leikir liðsins eru orðnir  62 á þessum vettvangi. Úrslit þessara leikja hafa verið á allan veg. Slæm töp, í öðrum viðunandi árangur, og góðir sigrar í einstaka leikjum. 

 

Akranesliðið lék fyrst í Borgarkeppni Evrópu (Inter City Fairs Cup) og voru andstæðingarnir Sparta Rotterdam frá Hollandi. Báðir leikirnir voru leiknir í Hollandi og töpuðust. Ári síðar tók liðið  þátt í keppni meistaraliða Evrópu og lék þá á Möltu gegn Sliema Wanderers og lauk þeim leikjum með tapi og jafntefli. Árið 1975 tók liðið þátt í meistaraliðakeppninni aftur og þá voru mótherjarnir Omonía frá Kýpur. Naumt tap á útivelli kom ekki í veg fyrir að liðinu tækist að komast í aðra umferð eftir 4-0 sigur á Laugardalsvellinum í fyrsta heimasigri íslensks liðs í Evrópukeppni. Dynamo Kiev var mótherji liðsins í 2. umferð. Þótti mótherjinn ekki árennilegur enda lék liðið þá sem landslið Sovétríkjanna. Þótt leikirnir töpuðust þótti frammistaða Skagaliðsins mjög góð og leikurinn á Melavelli í nóvember afar eftirminnilegur.

 

Árið 1976 var mótherjinn lið Trabsonspor í Tyrklandi og 1977 var komið að þátttöku í keppni bikarliða og mótherjinn þá norska liðið Brann frá Bergen. Heimaleikurinn gegn þeim var fyrsti Evrópuleikur sem leikinn var á Akranesi. Þýska stórliðið FC Köln, sem þá var bæði Þýskalandsmeistari og bikarmeistari, var mótherjinn 1978 og í heimaleiknum náðist jafntefli 1-1. Hafi þarna verið á ferðinni stórlið var það ekki síður raunin 1979, því mótherjinn þá var Barcelona frá Spáni, eitt af stórveldum Evrópuboltans. Þrátt fyrir mjög góðan leik í Reykjavík tapaði Akranes  0-1.

 

Nýr áratugur byrjaði á FC Köln öðru sinni í keppni félagsliða. Nú kom tveggja ára bið og 1983 var Akranes þátttakandi í keppni bikarhafa og mótherjinn Evrópumeistaranir sjálfir, Aberdeen frá Skotlandi. Þarna var frábær viðureign og máttu Skotarnir hafa sig alla við til að vinna 2-1 í Reykjavík og ná síðan 1-1 jafntefli í Aberdeen. Þetta verða að teljast frábær úrslit. Á árunum 1984-1989 var liðið í ýmsum keppnum, 1984 gegn Beveren í Belgíu og ári síðar gegn Aberdeen öðru sinni, bæði árin í meistarakeppninni. 1986 var mótherjinn Sporting Lissabon í keppni félagsliða, 1987 lið Kalmar frá Svíþjóð í keppni bikarhafa, 1988 var keppt gegn ungverska liðinu Ujpesti Dosza og 1989 gegn FC. Liege frá Belgíu, bæði árin í keppni félagsliða.

 

Næsta þátttaka var 1993 og þá í keppni meistaraliða. Mótherjinn var Partisan Tirana frá Albaníu og eftir jafntefli á útivelli vannst heimasigurinn örugglega og liðið öðru sinni í 2. umferð, nú gegn hollenska stórliðinu Feyjenoord. Akranes vann 1-0 á Laugardalsvelli með glæsilegu marki Ólafs Þórðarsonar. Leikurinn í Hollandi tapaðist 0-3 en um 1000 manns fóru gagngert frá Íslandi til að horfa á hann.

 

Næstu árin er liðið að keppa í félagsliðakeppninni og kemst öll árin í 2. umferð: 1994 gegn Bangor frá Wales og Kasierslautern frá Þýskalandi, 1995 gegn Shelbourne frá Írlandi og Raith Rovers frá Skotlandi. Þar voru okkar menn næst því að komast í keppni hinna stóru, aðeins eitt mark skildi að í heimaleiknum. 1996 voru mótherjarnir Selek frá Makidóníu og CSKA frá Rússlandi. 1997 var liðið í fyrstu undankeppni Meistaradeildar Evrópu og mótherjinn Kosice frá Slóvakíu og árið 1998 Zalgiris frá Litháen. Árið 1999 var liðið í Toto keppninni og eftir sigur gegn Tatis frá Albaníu féll það út eftir tvö töp gegn Lokeren frá Belgíu. Á síðustu tveim árum hafa mótherjarnir verið lið frá Belgíu: árið 2000 var mótherjinn Gent og 2001 lið FC Brugge.

 

Þó að árangur hafi ekki alltaf þótt góður má líta á þátttöku í Evrópukeppnum sem reynslubrunn og viðurkenningu fyrir leikmenn. Lið Akraness hefur komið víða við og leikið í 20 löndum.

 

 

GUÐMUNDUR SVEINBJÖRNSSON - MERKISBERI Í HÁLFA ÖLD

 

Á engan er hallað þó sagt sé að sá maður sem mest og best vann að uppgangi íþróttanna á Akranesi hafi verið Guðmundur Sveinbjörnsson. Guðmundur var alla tíð félagslyndur maður, enda hafði hann til að bera óvenjulega hæfileika til slíkra starfa, sem og annarra sem hann tók sér fyrir hendur. Guðmundur Sveinbjörnsson var fæddur á Akranesi 2. mars 1911 og var frá unga aldri virkur félagsmálamaður sem síðan reyndist honum gott vegarnesti þegar hann hóf að vinna með ýmsum félagasamtökum síðar á lífsleiðinni.

 

Guðmundur var einn þeirra ungu manna sem stofnuðu Knattspyrnufélagið Kára 1922 og var í stjórn félagsins og formaður þess um langt árabil. Við stofnun Íþróttabandalags Akraness 1946 var Guðmundur sá áhrifamaður sem mest hvatti til að Akurnesingar sendu sameiginlegt lið til keppni í knattspyrnu við önnur félög. Hann var fulltrúi félags síns í stjórn Íþróttabandalags Akraness við stofnun þess og lengst af formaður þess. Óhætt er að fullyrða að hann hafi farið fremstur í flokki forystumanna íþróttahreyfingarinnar á Akranesi þegar Akranesliðið varð Íslandsmeistari í knattspyrnu 1951 og lengi eftir það var hann þar í fylkingarbrjósti. Þá sat hann í stjórn Knattspyrnusambands Íslands frá stofnun þess 1947 til 1967, lengst af sem varaformaður.

 

Guðmundur var hinn sanni leiðtogi. Hann beitti sér mjög við að skapa æsku Akranesbæjar þá aðstöðu til íþróttaiðkana, sem lengi hefur verið ein sú besta hér á landi. Hann var mikill fundarmaður, góður ræðumaður, rökfastur og tillögugóður. Hann var harður málafylgjumaður en hógvær og þægilegur í öllum samskiptum sínum á fundum sem utan þeirra. Guðmundur átti við vanheilsu að stríða síðustu æviár sín, en samt lét hann ekki deigan síga. Hann lést 9. janúar 1971, tæplega 60 ára og með honum féll mikill leiðtogi sem skildi eftir djúp spor í sögu íþróttamála á Akranesi. Þessi dugmikli og fórnfúsi maður hreifst ungur af hugsjón íþróttanna sem felst í orðunum „heilbrigð sál í hraustum líkama.” Þeirri hugsjón var hann trúr til hinsta dags.

 

 

 

RÍKHARÐUR JÓNSSON - KOM AKRANESI Á KORTIÐ

 

Þegar Ísland lék sinn fyrsta landsleik, gegn Danmörku á Melavellinum árið 1946, var í landsliðshópnum sextán ára piltur frá Akranesi, Ríkharður Jónsson að nafni. Hann kom ekki inn á í þeim leik en átti hins vegar eftir að leika alla landsleiki Íslands næstu þrettán árin. Heilum nítján árum síðar lék Ríkharður sinn 33. og síðasta landsleik. Hann er enn í dag markahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi með 17 mörk. Hann var fyrirliði landsliðsins 24 sinnum.

 

Þegar Ísland vann frækinn sigur á Svíþjóð á Melavellinum 29. júní 1951, 4-3, skoraði Ríkharður öll fjögur mörkin og það fimmta, sem margir töldu löglegt, var dæmt af. Þetta er enn í dag met hjá A-landsliði Íslands og hefur aðeins einu sinni verið jafnað. En þrátt fyrir mörg góð afrek með íslenska landsliðinu er Ríkharðs ekki síður minnst fyrir frammistöðu sína í hinum gula og svarta búningi Skagamanna. Hann lék reyndar með Fram á námsárum sínum í Reykjavík um fjögurra ára skeið, og varð einu sinni meistari með þeim bláklæddu.

 

Þegar Ríkharður flutti aftur upp á Akranes árið 1951 urðu þáttaskil í knattspyrnusögu Íslands. Hann tók að sér þjálfun ÍA sem fram að þeim tíma hafði ekki unnið leik í Íslandsmótinu, þrátt fyrir að hafa leikið þar í fimm ár. Skagamenn slógu hressilega í gegn þetta sumar og urðu fyrstir til að flytja Íslandsbikarinn út fyrir borgarmörkin. Þarna hófst mikil sigurganga ÍA sem varð meistari sex sinnum á tíu árum. Ríkharður var jafnan í aðalhlutverki og varð markahæsti leikmaður Íslandsmótsins fimm ár í röð, 1951-1955, en á árunum með Fram hafði hann tvívegis orðið markahæstur, reyndar jafn öðrum í bæði skiptin.

 

Ríkharður var fljótur og kraftmikill sóknarmaður með mikla yfirferð. Í leikskrám fyrir landsleiki í Noregi og Danmörku fékk hann mikið hrós, Norðmennirnir lýstu honum t.d. sem fjölhæfum leikmanni sem smitaði útfrá sér með baráttuvilja sínum, og væri jafnframt sannur heiðursmaður, innan vallar sem utan.

 

Ríkharður var oft orðaður við erlend félög, meðal annars ítölsk, og litlu munaði að hann gerðist leikmaður með AIK í Svíþjóð. Haustið 1959 fór hann til æfinga hjá enska stórliðinu Arsenal sem hafði hug á að gera við hann samning. Ríkharður varð hins vegar fyrir slæmum meiðslum á meðan hann dvaldi hjá Arsenal og kostuðu þau hann tveggja ára fjarveru frá knattspyrnunni. Honum tókst að komast af stað á ný, þrátt fyrir hrakspár lækna, og lék með ÍA og landsliðinu til ársins 1966, en þá lauk 20 ára glæsilegum ferli. Ríkharður  hélt áfram þjálfun hjá ÍA til ársins 1973, með þeim árangri m.a. að liðið vann Íslandsmótið 1970, og hann þjálfaði einnig landsliðið á árunum 1969-1971. (Knattspyrna í heila öld)

 

 

GEORGE KIRBY - FRAMFARIR Í KNATTSPYRNUNNI

 

George Kirby var sannarlega réttur maður á réttum stað þegar hann tók við þjálfun Akranesliðsins 1974. Það var einstakt happ fyrir liðið að fá hann til starfa og áhrif hans til framfara í málefnum knattspyrnunnar á Akranesi eru ótvíræð.

 

George Kirby þjálfaði Akranesliðið 1974 og síðan 1975, 1977, 1978, kom lítilega við sögu 1980 og síðan 1982 og loks 1990. Fyrstu þrjú árin gerði hann liðið að Íslandsmeisturum og 1978 og 1982 að bikarmeisturum. Síðasta árið 1990 gekk liðinu miður og féll að lokum í 2 deild. Þá niðurstöðu tók hann mjög nærri sér og ljóst var að hann hafði ekki sömu áhrif á nýja  kynslóð leikmanna. Hann sá það sjálfur og óskaði eftir að láta af störfum áður en mótinu lauk. Óhætt er að segja að margir af lærisveinum hans sem síðar urðu þjálfarar hafi notað margt úr smiðju hans og má þar nefna Guðjón Þórðarson sem margoft hefur látið það koma fram hve George Kirby hafi haft mikið að segja fyrir hann.

 

George Kirby var með afbrigðum metnaðargjarn maður og hjá honum var gott skipulag á öllum hlutum. Leikmenn voru tilbúnir að gera allt sem hann sagði og má með sanni segja að hann hafi kynnt Skagamönnum heim atvinnumennskunnar í knattspyrnunni. Hann hafði góðan aga, innleiddi algjörlega nýjar aðferðir í sambandi við meiðsli og gerði kröfur um hluti sem áður voru óþekktir. Þessu fylgdi að allt starf knattspyrnuforystunnar jókst til muna, enda kostaði það stórfé að ráða erlendan þjálfara. Samstarf forystunnar, leikmanna og þjálfara varð miklu nánara en áður og hægt er að segja að hann hafi hækkað „standardinn” í knattspyrnunni á Akranesi til mikilla muna.

 

George Kirby var eitt sinn spurður hvort hann ætti draumalið skipað leikmönnum sem æfðu undir hans stjórn á Akranesi og kvað hann svo ekki vera, einfaldlega vegna þess að sér hafi þótt jafn vænt um öll sín lið og leikmenn þeirra. Þetta voru allt draumalið, því okkur gekk svo vel, sagði hann. Hann taldi þó að ef liðið frá 1975 hefði fengið að haldast óbreytt  hefði það getað náð einstökum árangri, bæði á Íslandi og gegn erlendum liðum. Liðið var sérstök blanda hæfileikamanna. Í því voru mjög reyndir leikmenn og svo ungir strákar. George Kirby stjórnaði Akranesliðinu í mörgum afar eftirminnilegum leikjum, bæði hérlendis og ekki síður á erlendri grund.

 

Eftir að hann hætti þjálfun á Akranesi árið 1990 má segja að afskiptum hans að þjálfun hafi lokið. Hann starfaði utan knattspyrnunnar í aðalstarfi, en hélt þó tengslunum við hana og var hjá nokkrum enskum liðum við að skoða leikmenn víðsvegar um heim og kom m.a. til Íslands í þeim erindagjörðum. Hann var í ágætum tenglum við vini sína á Akranesi hin síðari ár og hafði samband af og til. Hann lést í marsmánuði 2000 eftir erfiða sjúkdómslegu 67 ára að aldri. Eftir stendur minning um góðan félaga sem hafði  mikil áhrif á framgang knattspyrunnar á Akranesi til langs tíma.

 

 

GUÐJÓN ÞÓRÐARSON - GLÆSILEGUR FERILL

 

Guðjón Þórðarson á glæsilegan feril að baki sem leikmaður Akranesliðsins og síðar sigursæll þjálfari þess. Hann hefur markað djúp spor í knattspyrnusöguna og skráð nafn sitt gullnu letri. Guðjón, sem er fæddur 1954, er innfæddur Skagamaður og hóf þátttöku í knattspyrnu strax á unga aldri og lék í öllum yngri flokkunum á Akranesi. Hann tók jafnframt þátt í öðrum íþróttagreinum á unglingsárunum eins og gjarnt er og þótti efnilegur leikmaður og vakti fljótt athygli fyrir harðfylgi og metnað og er óhætt að segja að það hafi lengi fylgt honum og reynst honum vel.

 

Guðjón lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki ÍA 1972 og var fljótt einn lykilmanna liðsins allt til þess tíma að hann lagði skóna á hilluna haustið 1986, eftir fjórtán góð ár. Á þessum tíma var hann fimm sinnum Íslandsmeistari með Akranesliðinu 1974, 1975, 1977, 1983 og 1984 og hann varð bikarmeistari einnig fimm sinnum 1978, 1982, 1983, 1984 og 1986. Auk þessa lék hann með Akranesliðinu í Evrópu-keppnunum á árunum 1975–1986, alls 19 leiki. Margir þessara leikja voru gegn víðfrægum andstæðingum. Þá lék Guðjón einn A landsleik auk þess að leika bæði með U21 og U18 landsliðunum.

 

Þegar keppnisferli Guðjóns lauk tók hann við þjálfun Akranesliðsins 1987 og stýrði því að þessu sinni aðeins í eitt ár. Hann sýndi það strax að hann var metnaðarfullur þjálfari og náði ágætum árangri. Eftir árið gerist hann þjálfari KA á Akureyri og stýrði því liði næstu þrjú árin. Hann gerði liðið að Íslandsmeisturum 1989, mjög óvænt, og sýndi með því hvers vænta mætti af honum sem þjálfara í framtíðinni.

 

Eftir fall Akranesliðsins í 2. deild 1990 kom Guðjón að nýju heim og hóf uppbyggingu liðsins með þeim glæsilega hætti að sigra í 2. deild strax árið 1991 og fylgja því eftir með glæsilegum sigrum 1992 og 1993. Á þessum tíma byggði Guðjón upp frábært lið sem ekki átti sér hliðstæðu hér á landi. Sérstaklega er árið 1993 glæsilegt en þá vannst bæði deild og bikar og liðið náði einnig frábærum árangri í Evrópukeppninni. Flestir leikir sumarsins unnust með yfirburðum, enda markatala liðsins í deildinni einstök, eða 62 mörk í 18 leikjum.

 

Guðjón hætti með liðið í lok árs 1993 og fór til KR næstu tvö tímabilin. Þrátt fyrir að hann gæti ekki skákað Skagamönnum í deildarkeppninni þessi ár tókst honum að leiða lið sitt til sigurs í bikarkeppninni bæði árin. Það var meiri árangur en KR hafði mjög lengi náð. Guðjón sneri heim til Akraness á ný í byrjun árs 1996 og stýrði Akranesliðinu það ár með þeim glæsilega hætti að vinna alla helstu titla tímabilsins. Hann lét af störfum sem þjálfari liðsins eftir þetta tímabil og tók nokkru síðar við íslenska landsliðinu og stýrði því í þrjú ár með ágætum árangri. Hann tók síðan við framkvæmdastjórn Stoke City á Englandi eftir að íslenskir fjárfestar keyptu liðið.

 

Ljóst er að árangur Guðjóns á knattspyrnusviðinu er einstakur og verður seint jafnaður. Fimm meistaratitlar sem leikmaður og fjórir sem þjálfari. Fimm bikarmeistaratitlar sem leikmaður og fjórir sem þjálfari. Frábær ferill bæði sem leikmaður og þjálfari og sjálfsagt á hann mörg ár eftir, enda enn tiltölulega ungur þjálfari.

 

 

ÍÞRÓTTAMANNVIRKI AF ÝMSUM TOGA

 

Þegar knattspyrnufélögin voru stofnuð á Akranesi voru aðstæður til knattspyrnuiðkunar nánast engar. Langisandur var fyrsti æfingavöllurinn en kartöflugarðarnir voru einnig notaðir á þeim árstíma þegar því varð við komið, svo og ýmsir túnblettir.

 

Síðan var ráðist í gerð íþróttavallar þar sem nú eru gatnamót Stekkjarholts og Kirkjubrautar. Þetta var vísir að alhliða íþróttavelli, sem að vísu þótti ekki góður, en þó vel nothæfur og þarna fóru fram knattspyrnuleikir fyrstu árin. Þessum ungu frumherjum knattspyrnunnar á Akranesi tókst smám saman að yfirvinna hverja raun, þótt stundum miðaði hægt. Með árunum tókst báðum knattspyrnufélögunum, Kára og KA, að þoka málum áfram.

 

Gamli völlurinn þótti brátt ónógur í alla staði og var því leitað til hreppsnefndar um nýtt vallarsvæði. Brást hún vel við og úthlutaði íþróttafélögunum svæði á Jaðarsbökkum, en það var hallfleytt túnstæði, sem þurfti mikilla lagfæringa við. Sjálfboðaliðar hófu framkvæmdir við nýja vallarsvæðið vorið 1934, en það gekk heldur seint, sem von var, því allt var unnið í frítímum. Hinn nýi íþróttavöllur var svo formlega tekinn í notkun 16. júní 1935 við hátíðlega athöfn.

 

Þessi framkvæmd var byrjunin á þeirri uppbyggingu íþróttamannvirkja sem síðan hefur staðið yfir á Akranesi. Völlurinn var malarvöllur og hann var staðsettur þar sem nú er íþróttaleikvangur Akurnesinga.

 

 

 

ÁGRIP AF SÖGU GOLFKLÚBBSINS LEYNIS

 

Fyrstu sögur fara af golfleik á Akranesi upp úr 1960. Sést hafði til nokkurra einstaklinga sem kynnst höfðu golfi annars staðar að slá kúlur á Jaðarsbökkum og á svæðinu þar sem Bjarkargrund er nú. Þáverandi forseti Golfsambands Íslands, Sveinn Snorrason, beitti sér mjög fyrir því að íþróttabandalög og héraðssambönd hvettu til stofnunar golfklúbba sem víðast, en þá voru þeir aðeins þrír í landinu. Guðmundur Sveinbjörnsson, formaður ÍA, fékk áhuga á málinu og fékk nokkra menn í lið með sér til að undirbúa stofnun golfklúbbs, m.a. Óðinn S. Geirdal og Svein Hálfdánarson. Leitað var að svæði undir golfvöll og kom helst til greina tún ofan við Garða. 

 

Boðað var til stofnfundar þann 15. mars 1965. Fundurinn var settur í fundarherbergi ÍA í íþróttahúsinu við Laugarbraut og voru 22 Skagamenn mættir til leiks og gerðust allir stofnfélagar Golfklúbbs Akraness. Framhaldsstofnfundur var haldinn viku síðar, 22. mars og á þann fund mættu til að ráðleggja um framhaldið þeir Sveinn Snorrason forseti GSÍ og Þorvarður Árnason formaður Golfklúbbs Reykjavíkur. Lögð voru fram til samþykktar fyrstu lög golfklúbbsins og kosið í stjórn. Formaður var kosinn Sveinn Hálfdánarson, ritari Guðmundur Sigurðsson, gjaldkeri Guðmundur Magnússon og meðstjórnendur Þorsteinn Þorvaldsson og Leifur Ásgrímsson. Að fundi loknum höfðu gestirnir golfsýningu og grunnkennslu í áhorfendapöllum íþróttavallarins á Jaðarsbökkum.

 

Landið sem klúbburinn hafði áhuga á lá ekki á lausu enda var landið í Garðaflóa slægjuland, 12-13 hektarar. Bærinn átti það að hálfu á móti Garðaprestakalli. Klúbbnum var þó úthlutað um 3ja hektara landspildu sumarið 1965 og voru þar settar upp tvær holur og slegin braut á milli þeirra og kylfingar á Akranesi voru komnir á kreik. Árið eftir var svæðið stækkað í vestur um álíka stórt svæði og 6 holu golfvöllur var lagður um svæðið eftir tillögu Sverre Valtýssonar. Keyptar voru fyrstu sláttuvélarnar til viðhalds vallarins og skúr fékkst til afnota undir áhöld og smáverkfæri og var hann staðsetur nálægt norðurhorni vallarsvæðisins.

 

Fyrsta golfmótið á Akranesi var haldið 20. ágúst 1967. Vegna mikils vatnsveðurs þann dag var mótið nefnt Vatnsmótið og hefur það verið haldið árlega allar götur síðan og nafnið haldist. Þetta sama ár gaf Sturlaugur Böðvarsson veglegan farandgrip til minningar um föður sinn, Harald Böðvarsson, og var fyrst keppt um gripinn í Haraldarmótinu 1968.  Sigurvegari í þessum fyrstu mótum var ungur 15 ára strákur, Hannes Þorsteinsson, sem seinna átti eftir að koma mikið við sögu klúbbsins.

 

Klúbburinn var formlega tekinn inn í Golfsamband Íslands á golfþingi 1967 og var þá 7. aðildarklúbbur sambandsins. Þetta sama ár var Þorsteinn Þorvaldsson kosinn formaður og gegndi hann því embætti í 14 ár samfleytt, en hann hafði einnig setið í stjórn fyrstu árin sem meðstjórnandi. Var hann allt í öllu varðandi félagsstarfið og uppbyggingu og viðhald golfvallarins og er óvíst nema að klúbburinn hefði lognast útaf ef hans hefði ekki notið við á frumherjaárunum. Þorsteinn var útnefndur heiðursfélagi Leynis á 20 ára afmæli klúbbsins 1985.

 

Árið 1969 náðist stór áfangi í sögu klúbbsins þegar bæjaryfirvöld samþykktu úthlutun lands til stækkunar golfvallarins í vestur og spannaði það þá um 15 hektara. Eftir samkeppni meðal félaga var samþykkt skipulag að 9 holu golfvelli sem Hannes Þorsteinsson lagði fram, og var það hans fyrsta golfvallarteikning. Síðan hefur Hannes skipulagt fjölda golfvalla. Klúbburinn keypti þetta ár seglasaumaverkstæði Elíasar Benediktssonar, sem áður var gamla vörubílastöðin, og var húsið flutt upp að golfvelli og sett niður nærri Grímsholti, sem þá var íbúðarhús. Félagar unnu mikla sjálfboðavinnu við að innrétta húsið sem fyrsta golfskála golfklúbbsins. Dráttarvél var keypt og starfsemin tók kipp. Keppt var í fyrsta skipti í Firmakeppninni um farandgrip sem verslunin Skagaver gaf klúbbnum.

 

Nafni klúbbsins var breytt 1970 vegna sömu skammstöfunar á nafni og Golfklúbbur Akureyrar. Eftir að hafa yfirfarið ýtarlega örnefnaskrá fyrir golfvallarsvæðið og næsta nágrenni, sem Jón Sigmundsson úr Görðum lagði til, var nafnið Leynir samþykkt að tillögu Óðins S. Geirdals, sem síðar varð fyrsti heiðursfélagi klúbbsins, árið 1977.  „Leynirinn’’ er svæðið handan holtanna á golfvellinum sem eru næst bænum, enda er það í hvarfi frá hinum gamla Skipaskaga. Um svæðið rennur Leynislækurinn til sjávar í vog sem nefnist Leynir. Merki klúbbsins var breytt til samræmis og var tillaga Sverre Valtýssonar samþykkt.

 

Sumarið 1970 var fyrst keppt í meistaramóti Leynis. Keppt var í meistaraflokki, 2. flokki og flokki unglinga. Í meistaraflokki var keppt um nýjan farandgrip sem tileinkaður er minningu Guðmundar Sveinbjörnssonar. Fyrsti klúbbmeistarinn var Hannes Þorsteinsson en hann varð síðar fyrsti landsliðsmaður klúbbsins, árið 1973. Fyrsta opna golfmótið á Akranesi var haldið þetta sumar og gaf Sementsverksmiðja Ríkisins farandgrip til keppninnar. Klúbburinn eignaðist þetta ár sinn fyrsta einherja, Finnboga Gunnlaugsson, en hann varð síðar fyrstur Leynismanna til að vinna Íslandsmeistaratitil, í 2. flokki, árið 1973.

 

Árið 1971 var gerður samningur við Akranesbæ um afnot klúbbsins að vallarsvæðinu til 20 ára. Sænski golfvallahönnuðurinn Nils Skjöld kom í heimsókn á Skagann 1972 og lagði fram tillögu um breytt skipulag vallarins. Var hún nær samhljóða tillögu frá Hannesi Þorsteinssyni og var tekið að leika samkvæmt þessu skipulagi strax það sumar. Þar var kominn grunnur þess skipulags sem enn er í Garðavelli. Elín Hanna Hannesdóttir, fyrsta félagsbundna Leyniskonan og eiginkona Þorsteins, varð fyrst kvenna til að taka þátt í móti í klúbbnum 1973. Árið 1974 hófst keppni í 1. og 3. flokki í meistaramóti GL en keppni í kvennaflokki hófst 1976 og var Elín fyrsti kvennameistari klúbbsins. Elín var útnefnd heiðursfélagi Leynis árið 1992 og við sama tækifæri einnig Guðrún J. Geirdal, en hún var þá elst allra kvenkylfinga landsins, þá 81 árs. Stöðugt var á þessum árum unnið að framkvæmdum á Garðavelli undir stjórn feðganna Þorsteins og Hannesar, en sá síðarnefndi var vallarstarfsmaður fyrstu 7 árin.

 

Mjög merkur áfangi náðist 1978 þegar íbúðarhúsið í Grímsholti var keypt ásamt skemmu.  Kaupin voru styrkt af íþróttasjóði, ÍA og einnig styrkti Akranesbær kaupin á veglegan hátt. Guðbjörg Árnadóttir varð fyrst kvenna kosin í stjórn GL 1978. Þetta ár fór í fyrsta skipti fram stórmót á vegum GSÍ á Garðavelli, Unglingameistaramót Íslands. Síðan hafa Leynismenn séð um framkvæmd nokkurra Unglingameistaramóta, Sveitakeppna og úrtökumóta til landsliða GSÍ og árið 2001 Íslandsmótið í holukeppni. Árið 2004 mun Landsmót í golfi fara fram á Garðavelli.

 

Unglingastarf hefur allt frá fyrstu tíð verið öflugt hjá kylfingum á Akranesi. Glæsilegasti afrakstur þess starfs kom svo í ljós þegar tveir Leynisfélagar, Birgir Leifur Hafþórsson 1996 og Þórður Emil Ólafsson 1997 urðu Íslandsmeistarar karla í golfi. Báðir voru þeir útnefndir Íþróttamenn Akraness í kjölfar sigra sinna.

 

Með samþykkt aðalskipulags Akranesbæjar 1982 má segja að framtíð Garðavallar hafi verið tryggð og unnið var að frekari uppbyggingu í smáum áföngum næstu árin. Reynir Þorsteinsson var kjörinn formaður á aðalfundi 1983 og gegndi hann því embætti út starfsárið 1989. Í stjórnartíð hans má segja að framtíðarsýn klúbbsins hafi skýrst og vann hann á þeim tíma og síðar ötullega að framgangi golfsins á Akranesi, bæði til eflingar félagsstarfs og framþróunar golfvallarins. 

 

Fyrstu alvarlegu hugmyndirnar um stækkun Garðavallar í 18 holur urðu opinberar 1988 þegar  Hannes Þorsteinsson lagði fram skipulagsdrög að 18 holu velli. Eftir nokkurra ára undirbúning var svo árið 1994 undirritaður framkvæmdasamningur við Akranesbæ og í kjölfarið var hafist handa við fyrsta áfangann sem komst í gagnið þegar Garðavöllur varð 11 holur 1995. Framkvæmdasamningurinn var endurskoðaður 1997 og haldið var áfram við framkvæmdir. Þann 7. júlí aldamótaárið 2000, sló svo  heiðursfélaginn Þorsteinn Þorvaldsson hið langþráða vígsluhögg af fyrsta teig hins nýja og glæsilega 18 holu Garðavallar. Með þeim áfanga má segja að Akurnesingar hafi loks eignast golfvöll í alþjóðlegum gæðaflokki.

 

 

Formenn GL

 

1965                Sveinn Hálfdánarson

1966                Leifur Ásgrímsson

1967 - 1981     Þorsteinn Þorvaldsson

1982 - 1983     Pétur Jóhannesson

1984 - 1989     Reynir Þorsteinson

1990 - 1991     Gísli Einarsson 

1992 - 94         Arnheiður Jónsdóttir

1995 - 1996     Hörður Harðarson

1997                Hannes Þorsteinsson

1998 - 1999     Hafsteinn Baldursson

2000 -              Hannes Þorsteinsson

 

 

Klúbbmeistarar GL. Karlar:

 

1970 - 1974    Hannes Þorsteinsson

1975                Guðni Örn Jónsson

1976                Gunnar Júlíusson

1977                Ómar Örn Ragnarsson

1978 - 1980     Björn H. Björnsson

1981 - 1982     Ómar Örn Ragnarsson

1983 - 1984    Hannes Þorsteinsson

1985                Ómar Örn Ragnarsson

1986                Hannes Þorsteinsson

1987 - 1988     Ómar Örn Ragnarsson

1989                Kristinn G. Bjarnason

1990                Hjalti Nielsen

1991 - 1993     Birgir Leifur Hafþórsson

1994                Kristinn G. Bjarnason

1995 - 1996     Birgir Leifur Hafþórsson

1997 - 1998     Þórður Emil Ólafsson

1999                Helgi Dan Steinsson

2000                Birgir Leifur Hafþórsson

2001                Helgi Dan Steinsson

 

Konur:

 

1976 - 1982     Elín H. Hannesdóttir

1983 - 1989     Sigríður Ingvadóttir

1990                Arnheiður Jónsdóttir

1991                Sigríður Ingvadóttir

1992 - 1993     Arnheiður Jónsdóttir

1994                Sigríður Ingvadóttir

1995                Hrafnhildur Sigurðardóttir

1996                Elín Theodóra Reynisdóttir

1997 - 2001     Arna Magnúsdóttir

 

Sigurvegarar í Haraldarmótinu:

 

1968                Hannes Þorsteinsson

1969 - 1971     Gunnar Júlíusson

1972                Sigurbjörn Jónsson

1973                Pétur Jóhannesson

1974                Óli Örn Ólafsson

1975                Víðir Bragason

1976                Ævar Sigurðsson

1977                Jón Alfreðsson

1978                Magnús Gunnlaugsson

1979                Sören Madsen

1980                Jón Svavarsson

1981                Hannes Þorsteinsson

1982                Reynir Þorsteinsson

1983                Örn Gunnarsson

1984                Gunnar Júlíusson

1985                Sigurður Már Harðarson

1986                Hörður Svavarsson

1987                Valur Guðjónsson

1988                Gunnar Örvar Helgason

1989                Kristvin Bjarnason

1990                Helgi Dan Steinsson

1991                Ólafur Theodórsson

1992                Sigurður H. Guðfinnsson

1993                Valdimar Hjaltason

1994                Bjarni Þór Hannesson

1995                Elín Th. Reynisdóttir

1996                Gísli Gíslason

1997                Alfreð Gissurarson

1998                Hjörtur Júlíusson

1999                Haukur Dór Bragason

2000                Sigurður Ragnarsson

2001                Trausti Freyr Jónsson

 

 

Íslandsmeistarar GL:

 

Skráin er enn í vinnslu hjá Reyni Þorsteinssyni

(enn vantar hér inn nokkrar færslur, sérstaklega sveitakeppnir)

 

 

1985                Gunnar Júlússon,  Íslandsmeistari öldunga

1989                Hjalti Nielsen,  Íslandsmeistari pilta

1992                Birgir Leifur Hafþórsson, Íslandsmeistari pilta

1996                Birgir Leifur Hafþórsson, Íslandsmeistari karla

1996                Þórður Emil Ólafsson, Íslandsmeistari karla

 

 

 

 

 

SUNDFÉLAG AKRANESS STOFNAÐ 30. JANÚAR 1948

 

Þann 4. júní 1944 var Bjarnalaug vígð og má segja að upp frá því hafi sundáhugi á Akranesi verið mjög mikill. Skólasund hófst og sundæfingar voru stundaðar af stórum hópi unglinga. Til að geta keppt við önnur félög og komist á landsmót þurfti að stofna íþróttafélag og gerast aðili að Íþróttabandalagi Akraness. Til að ná þessum markmiðum var Sundfélag Akraness stofnað þann 30. janúar 1948. Fyrsti sundkennarinn var Helgi Júlíusson ásamt þeim Guðjóni Hallgrímssyni og Magnúsi Jónssyni. Fyrsta stjórn SA var skipuð þeim Einari Mýrdal formanni, Helga Júlíussyni og Helgu Kristínu Bjarnadóttur.

 

Í viðtali sem tekið var við þá Helga Júlíusson og Einar Mýrdal í tilefni 40 ára afmælis Sundfélags Akraness kom eftirfarandi fram: „Æfingar voru stundaðar af kappi og voru aðstæður oft þannig að óhugsandi væri að synda við þær í dag. Laugin var fyrstu árin óyfirbyggð og moldrok oft mikið, en áfram var synt þótt ekkert sæist nema hausinn. Engin hreinsitæki voru í lauginni og engin hitaveita og þá var kynt með kolum og var farið upp í laug kl. 6 á morgnana til að kveikja upp svo vatnið væri orðið heitt þegar fyrsta sundfólkið mætti. Laugin var hreinsuð á föstudögum. Þegar langt var liðið á kvöld og síðasta sundfólkið farið heim var vatninu hleypt úr lauginni og tók það nokkurn tíma. Síðan var laugin skrúbbuð að innan og vatni hleypt í aftur og opnað eftir hádegi á laugardegi.”

 

Síðan þessi orð áttu við hefur mikið vatn runnið til sjávar (eða í laugina). Starf  SA hefur verið mjög öflugt alveg frá upphafi, og margir hafa komið að starfinu, sundmenn, þjálfarar og aðrir. Ekki liðu nema fimm ár þar til Skagamaður setti fyrsta Íslandsmetið í sundi og var það Jón Helgason sem setti met í 50 metra bringusundi á Norðfirði 1953, og síðan þá hafa mörg íslandsmet verið sett af sundfólkinu okkar, en of langt mál yrði að fara hér í upptalningu á öllu því sundfólki sem verið hefur í fremstu röð.

 

Strax árið 1949 tók Hallur Gunnlaugsson við starfi formanns af Einari Mýrdal og hófst þá langur og farsæll ferill hans hjá SA. Hann starfaði sem þjálfari og stjórnarmaður hjá félaginu í hartnær 40 ár og er ekki hægt að segja sögu félagsins án þess að minnast á hann og einnig verður að geta Helga Hannessonar sem starfað hefur við þjálfun og sundkennslu í rúm 30 ár og er enn að.

 

SA hefur eins og áður sagði átt marga góða sundmenn gegnum tíðina en það sem sennilega hefur borið hæst er að fimm sundmenn frá Akranesi hafa keppt fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum. Fyrstir fóru þeir Guðjón Guðmundsson og Finnur Garðarsson árið 1972, en Finnur er fæddur og uppalinn á Skaga en æfði með Sundfélaginu Ægi þegar hann fór á Ólympíuleikana. Næstur fór Ingi þór Jónsson árið 1984. Ragnheiður Runólfsdóttir tók þátt í tveim leikjum, árin 1988 og 1992 og á síðasta ári þ.e. árið 2001 var röðin komin að Kolbrúnu Ýr Kristjánsdóttur og á hún vafalaust eftir að láta meira að sér kveða í framtíðinni. 

 

Tvisvar hafa sundmenn af Akranesi verið valdir Íþróttamenn ársins á Íslandi, en þar reið á vaðið Guðjón Guðmundsson árið 1972 en það ár keppti hann sem fyrr segir á Ólympíuleikum og setti einnig Norðurlandamet í bringusundi, og síðan Ragnheiður Runólfsdóttir árið 1991.

 

Eitt besta tímabil félagsins hvað heildina varðar var í lok níunda áratugarins og í upphafi þess tíunda. Þrjú á í röð árin 1988, 1989 og 1990 varð félagið bikarmeistari og átti á þessum tíma marga góða sundmenn. 

 

Mikið starf hefur verið unnið í fjáröflun fyrir félagið frá upphafi og hafa ýmsar leiðir verið farnar. Það sem hefur borið hæst síðustu árin, og hefur sett mikinn svip á menningarlíf bæjarins, er Útvarp Akraness sem SA reið á vaðið með árið 1988 fyrst í samvinnu með Skagablaðinu, og hefur það verið árlegur viðburður síðan eða fjórtán sinnum. Annar árlegur viðburður er Faxaflóasundið en það er áheitasund þar sem elstu sundmennirnir synda í blautbúningum frá Reykjavík til Akraness í fylgd hafnsögubátsins og bjögunarsveitarmanna og er þetta mikil þrekraun og hefur vakið athygli bæði hér á Akranesi sem og annars staðar.

 

Starf SA í dag er blómlegt, margir efnilegir sundmenn æfa með félaginu og má með sanni segja að framtíðin sé björt nú, þegar 54 ár eru liðin frá stofnun þess.

  

 

 

 
Safnasvæðið á Akranesi | Görðum | 300 Akranes | Sími 431 5566 | museum@museum.is
Akraneskaupstaður